Færsluflokkur: Bloggar
Hilmar Örn og Barna-og Kammerkór Biskupstungna
9.4.2008 | 06:59
Ég var á sveitarstjórnarfundi í gær. Er alltaf að reyna að opna augu fólks fyrir því að meta og dá störf Hilmars Arnar sem hefur verið kórstjóri í Biskupstungum síðar Bláskógabyggð undanfarin 17 ár. Oddvitinn, sem er ekki meðflokksmaður minn, hefur hvað eftir annað að orði um mig að hann sé mjög hissa á mér að vera sífellt að tala um hann Hilmar og flotta barnakórastarfið hans. Hann er ekki sammála mér um barnakórastarfið, finnst það ekkert merkilegra en annað starf með börnum.
Við erum svakalega ósammála og ég þakka guði fyrir að börnin mín fengu að njóta Hilmars Arnar þegar þau voru í Reykholtsskóla. Að örðum ólöstuðum þá minnist ég þess ekki að neinn annar hafi lagt meira af mörkum til uppeldis og þroska barnanna í Tungunum/Bláskógabyggð undanfarin 17 ár og Hilmar Örn Agnarsson.
Nú eru störf Hilmars í hættu hann þarf á því að halda að störf hans séu metin að verðleikum. Foreldrar hafa óskað eftir því að hann starfi að eflingu kórastarfsins innan veggja Grunnskóla Bláskógabyggðar (áður Reykholtsskóla) og að börnin fái að njóta hans áfram í öflugu kórastarfi.
Ég er voða hrædd um að samfélagið sé að tapa Hilmari Erni. Veit að margir skólar og samfélög öfunda okkur af Barnakór Biskupstungna og langar að njóta hæfileika Hilmars til að byggja upp sambærilegt starf með börnum sínum. Það verður slegist um Hilmar Örn ef hann sér sér ekki fært að leyfa okkur að njóta starfskrafta hans áfram í Bláskógabyggð.
Bloggar | Breytt 14.4.2008 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðborgin, gömul hús
4.4.2008 | 09:24
Hef átt húseign í miðborginni síðan 1972. Þá þótti glapræði að kaupa sér íbúð í gömlu niðurnýddu timburhúsi. Breiðholtið og steinsteypan var viturlegri fjárfesting að mati flestra. Nú er húseign mín allt í einu mikils virði fyrir fjárfesta sem vilja byggja ný hús. Þeir bjóða gull og græna skóga til að fá lóðir í miðbænum en vilja rífa gömlu húsin sem eru á lóðunum.
Var í stjórn Torfusamtakanna, þegar Vilmundur Gylfason heitinn þáverandi menntamálaráðherra friðaði Torfuna. Mikill sigur og í kjölfarið var Torfan gerð upp og verndarsjónarmið í miðbænum urðu ríkjandi.
Peningar eru freisting þeim sem fá há tilboð í eignir sem áður voru ekki mikils virði. Þarf ekki að stofna sjóð sem kaupir eignir fólks sem vill selja gömul hús á því verði sem nú er boðið í húsin? Verndarsjóð gamalla húsa sem mikilvægt er að varðveita.
37 auð hús í miðborginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Lyngdalsheiðarvegur verður heilsársvegur.
4.4.2008 | 07:26
Við Uppsveitarfólk í Árnessýslu höfum beðið lengi eftir heilsársvegi um Lyngdalsheiðina. Núverandi vegur er hættulegasti vegur landsins, þar eru langflest slys og skemmdir. En samt eru afturhaldsseggir eins og Pétur M. Jónsson og fleiri sem ætlast til að við, sem búum í Uppsveitunum, þurfum ekki að hafa eðlilegar nútímalegar samgöngur. Þingvallasveitin valdi að sameinast Laugardalshrepp og Biskupstungum árið 2002 og við það lagði sveitarstjórn mikla áherslu á að bæta samgöngur innan sveitarfélagsins.
Fram að þessu hefur einungis verið hægt að aka afburða lélegan veg um Lyngdalsheiðina, þrjá mánuði ársins. Á veturna er leiðin ófær og lokuð.
Rök andstæðinga um að útsýni verði skert er út í hött, því fólki verður gert mögulegt að aka stuttan spöl og stoppa til að njóta útsýnisins. Það er líka ósannindi að segja að vegurinn færist nær vatninu. Væntanlegur vegur tengist núverandi vegi úr Grímsnesinu hjá Mjóanesi. Það er miklu fjær vatninu en núverandi Gjábakkavegur er.
Stjórn þjóðgarðsins getur takmarkað umferð um Þjóðgarðinn við fólksflutninga og ætlar að ekki að leyfa aukinn hraða. Nú má aka á 50 km hraða. Sveitarstjórn hefur alltaf lýst sig tilbúna til að samþykkja slikar reglur.
Lyngdalsheiðarvegur boðinn út í næstu viku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lyngdalsheiðarvegur loksins boðinn út.
3.4.2008 | 15:11
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti strax eftir kosningar 2002 að með fyrstu verkum hennar yrði að leggja áherslu á að fá heilsárs veg milli Þingvallasveitar og Laugardals. Vonast var til að verkframkvæmdum yrði lokið fimm árum seinna eða 2007. Þá voru liðin 100 ár frá því að fyrsti vegur landsins var lagður þar sem nú er Gjábakkavegar, en vegurinn kallaðist áður Kóngsvegur. Stefnt var að því halda hátíð í tilefni 100 ára afmæli vegagerðar á Íslandi með opnum nýs Lyngdalsheiðarvegar.
Vinna við undirbúning vegarins hefur dregist úr hömlu en nú hefur öllum skilyrðum verið fullnægt til að hægt sé að hefja framkvæmdir.
Þingvallasveit ákvað að sameinast Laugardalshreppi og Biskupstungum vorið 2002 og var forsenda þeirrar sameiningar að vegsamband yrði allt árið en ekki bara í þrjá mánuði (sumarmánuðina) á milli Þingvalla og Laugardals. Nú er draumur íbúa Þingvalla að verða að veruleika. Öllum formlegum skilyrðum hefur verið fullnægt og nú er ekki eftir neinu að bíða.
Núverandi Gjábakkavegur liggur í vegstæði Kóngsvegar. Þegar bílar hætta að aka um gamla Kóngsveginn þá er hægt að friða hann og vernda. Kóngsvegurinn getur aftur orðið reiðvegur. Með því sýnum við sögunni og verkmönnum fortíðar virðingu okkar.
Hvetur ráðherra að breyta fyrirhugaðri staðsetningu Gjábakkavegar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 27.7.2008 kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lyngdalsheiðarvegur, Gjábakkavegur
28.3.2008 | 19:00
Enn eru bullandi rangfærslur viðhafðar af afturhaldsöflunum sem neita okkur Uppsveitarfólki um almennilegar samgöngur. Í Speglinum áðan (ruv.is) var því haldið fram að hraðbraut yrði í gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum við það að 17 km leið yfir Lyngdalsheiðina fengi lagfæringu og yrði heilsársleið fyrir þá sem þurfa og vilja stytta sér leið milli Þingvalla og Laugarvatns.
Leiðrétt skal hér að einungis er um að ræða vegarkafla sem kemur hvergi nálægt Þingvallaþjóðgarðinum og fer aldrei inní þjóðgarðinn. Hið rétta er líka að umferðin færist fjær þjóðgarðinum en hún er nú. Í það minnsta þrjá kílómetra fjær þjóðgarðinum en nú er.
Einnig liggur fyrir að Þingvallanefnd ætlar ekki að leyfa hærri hámarkshraða í gegnum þjóðgarðinn en nú er, 50 km. Engin krafa erum að hraðinn aukist í þjóðgarðinum. Sveitarstjórn hefur samþykkt aðalskipulag Þingvallasveitar og þar eru vatnsverndarákvæði mjög ströng. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar ætlar sér að vernda Þingvallavatn um leið og almennar samgöngur verða að standast nútímakröfur. Við erum engir molbúar hér í Uppsveitum Árnessýslu og dónaskapur að segja við okkur að við eigum að búa við 5. flokks samgöngur hér, bugðótta hættulega ófæra vegi megnið af árinu.
Bloggar | Breytt 27.7.2008 kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lífsins leiðir og leiðin suður um Lyngdalsheiði.
28.3.2008 | 09:52
Bein mín eru að gróa ég hressist með hverjum deginum. Vorkenni mér ekkert, en hugsa til Ólafar Pétursdóttur, vinkonu minnar sem lést á skírdag. Langar mjög að vera við jarðarförina á morgun en móðurbróðir minn Árni Stefánsson lést óvænt á páskadag og verður líka jarðaður á morgun. Þá eru öll systkynin hennar mömmu farin úr þessum heimi. Við Óli ætlum að skipta okkur, ég fer austur en hann fer suður. Leiðinlegt að athafnirnar skuli bera uppá sama dag en við því er ekkert að gera.
Við Uppsveitarfólk í Árnessýslu höfum beðið lengi eftir heilsársvegi um Lyngdalsheiðina. Í gær var sveitarstjórn Bláskógabyggðar að leggja síðustu blessun sína á framkvæmdaleyfið. Vegurinn verður boðinn út strax eftir það. Undarlegt að á 21. öldinni skuli fólki detta í hug að vegasamgöngur eigi að vera lélegar og gamaldags.
Núverandi vegur er hættulegasti vegur landsins, þar eru langflest slys og skemmdir. En samt eru afturhaldsseggir eins og Pétur M. Jónsson og fleiri sem ætlast til að við, sem búum í Uppsveitunum, þurfum ekki að hafa eðlilegar nútímalegar samgöngur. Þingvallasveitin valdi að sameinast Laugardalshrepp og Biskupstungum árið 2002 og við það lagði sveitarstjórn mikla áherslu á að bæta samgöngur innan sveitarfélagsins.
Fram að þessu hefur einungis verið hægt að aka afburða lélegan veg um Lyngdalsheiðina, þrjá mánuði ársins. Rök andstæðinga um að útsýni verði skert er út í hött, því fólki verður gert mögulegt að aka stuttan spöl og stoppa til að njóta útsýnisins. Það er líka út í hött að tala um að vegurinn komi nær vatninu. Væntanlegur vegur tengist núverandi vegi úr Grímsnesinu hjá Mjóanesi. Það er miklu fjær vatninu en núverandi Gjábakkavegur er.
Hægt er með einföldum hætti að takmarka umferð um Þjóðgarðinn við fólksflutninga. Sveitarstjórn hefur alltaf lýst sig tilbúna til að samþykkja slikar reglur.
Bloggar | Breytt 27.7.2008 kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Meðferðartækni efling foreldrafærni
17.3.2008 | 21:39
Heyrði í Braga Guðbrandssyni á BVS ræða við fréttamanninn Guðrúnu Frímannsdóttur í Speglinum í kvöld. Ráðstefnan um eflingu foreldrafærni gaf Braga möguleika á að ræða við fjölmiðla. Hlusta alltaf vel á Braga þegar hann kemst í fjölmiðla enda minnkar áhugi minn, á velferð ungmenna og fjölskyldna þeirra ekki. Bragi sagði m.a.að á ráðstefnunni hefðu verið kynntar til sögunnar margar aðferðir sem hafa það að markmiði að efla og styrkja foreldrana sjálfa í að takast á við vanda barna sinna. Svo sagði hann: að aðferðirnar væru árangursríkari og varanlegri úrlaust ef tækist að styrkja foreldrið því að foreldrar væru alltaf til staðar fyrir börnin. Ég verð hálf sorgmædd fyrir hönd þeirra sem ekki hafa fengið að njóta svona meðferðar, eins og meðferðin hljómar einföld og falleg. Guðrún spurði hversvegna svona meðferð hefði ekki verið notuð ennþá af BVS. Hann svaraði því með því að áhugaleyfi BVS hefði komið í veg fyrir að nota þessa aðferð fram að þessu.
Ég verð aðeins að skipta mér af þessu því nú finnst mér farið rangt með. Barnaverndarstofa var stofnuð sumarið 1995. Þá hafði Meðferðarheimilið Torfastöðum, fyrsta einkarekna meðferðarheimilið á Íslandi verið starfrækt í 16 ár. Við Óli höfðum áður unnið á Unglingaheimilinu og ég hafði því unnið og þróað meðferðarvinnu með ungmenni í 25 ár. Þennan gullmola, Meðferðarheimilið Torfastöðum, fékk Barnaverndarstofa upp í hendurnar, enda bjó Bragi til reglugerð sem gerði okkur (Torfastöðum) skylt að vinna undir yfirstjórn BVS.
Í meðferðarvinnunni á Torfastöðum urðu foreldrar að gangast undir það að koma í fjölskyldumeðferð a.m.k. einu sinni í mánuði allan vistunartímann og sumir komu oftar. Þetta gekk mjög vel og árangur meðferðarinnar mjög mikill, enda höfðu allir rekstraraðilar (við vorum fjögur í byrjun) verið í þriggja ára námi og handleiðslu í fjölskyldumeðferðarvinnu. Auk þess þurftu foreldrar að vinna mjög markvisst í því að taka á móti börnum sínum í heimfararleyfum, æfa sig í að lifa með þeim á nýjan hátt og ná tökum á fjölskyldunni allri. Læra að lifa innihaldsríku og gefandi fjölskyldulífi.Það tók BVS 9 ár að flæma okkur úr starfi okkar eftir 32ja ára starf í meðferðarvinnu með ungmenni og fjölskyldur þeirra.
Nú er kominn tími til að gera nýja hluti segir Bragi styrkja foreldrana sjálfa í að takast á við vanda barna sinna hann segir það varnalegri úrlausn. Þessi nýja aðferð Braga var notuð af okkur frá árinu 1979 (þegar við lögðum niður Breiðavík með því að bjóða betri meðferðarúrræði) eða í 25 ár í vinnu Meðferðarheimilisins Torfastöðum með börnum og foreldrum þeirra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er að læra
17.3.2008 | 09:46
Ég var að prófa mig á blogginu, gengur hægt er svo ein, verð að læra allt án hjálpar en það kemur. Mér liggur ekkert á nú þegar ég er með brotið herðablað, 5 rifbein putta og viðbein. Báðar hendur hamlaðar. Get vel eytt tímanum í að læra á tæknina. Setti inn mynd af Stormi en held að hún sé alltof stór fyrir kerfið. Það gerir ekkert til, hann er flottasta barnabarnið mitt enda hið eina ennþá.
Ætlaði að vera í bænum í dag að hlusta á fyrirlestra um eflingu foreldrafærni en fann í gær að það yrði ekki sniðugt fyrir mig að mæta á ráðstefnuna. Get ekki ekið sjálf og þyrfti því mann með mér og svo er ég öll hreyfihömluð. Er bara of mikið brotin ennþá og of stutt síðan ég slasaðist. Læri bara í staðinn á bloggið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Loksins byrja ég að blogga
16.3.2008 | 17:01
Fæ bloggstíflu um leið og ég reyni að hefjast handa. Slasaðist fyrir fjórum vikum við tamningar og hef því meiri tíma en oft áður til að setja eigin hugsanir og vangaveltur á bloggið. Finnst reyndar allir aðrir með svo fínar síður og ég kann ekkert fyrir mér enn í tækninni. Það kemur. Veðrið frábært hér í Biskupstungum í dag, Pálmasunnudag. Vona að sumarhúsaeigendur hafi notið helgarinnar eins og við íbúarnir. Páskarnir framundan og ég strax farin að hlakka til allra gestanna sem verða með okkur á Torfastöðum. Eigum svo stórt hús með mörgum ónotuðum herbergjum eftir að við hættum að taka börn og fjölskyldur þeirra í meðferð. Nóg pláss. Stórfjölskyldan nýtur góðs af því, enda höldum við miklar hátíðir um jól og páska.
Hef miklar áhyggjur af því hvað Barnaverndarstofa dregur sífellt úr þjónustu sinni við ungt fólk. Á sama tíma og ríkisstjórnin samþykkir að hún vilji leggja áherslu á aukna þjónustu við börn. Inga og Siggi á Hvítárbakka hættu síðastliðið haust, við tóku nýjir rekstraraðilar og nú fimm mánuðum síðar er verið að hætta rekstri Hvítárbakka. Reksturinn í Háholti virðist vera að taka breytingum búið að auglýsa eftir nýjum rekstraraðila þar. Við vildum ekki sitja lengur undir óvild og ávirðingum Braga forstjóra og hættum eftir 25 ára starf, 9 árum eftir að Barnaverndarstofa varð til. Á örugglega eftir að ræða þessi mál mikið á síðunni minni enda er velferð barna mitt hjartans mál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)