Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
Skattahækkanir fjármálaráðherra
29.5.2009 | 16:47
Ég fékk mikið svartsýniskast á leiðinni í vinnuna í morgun þegar ég heyrði að ráðherra hefur ákveðið að leggja á eldsneytisskatt. Olían mun hækka um rúmar 12 krónur líterinn að sögn Runólfs form. FÍB.
Þetta hlýtur að þýða það að fólk heldur í við sig varðandi ferðalög í sumar. Ég ætla allavega ekki að aka um landið og eyða þannig peningum sem ekki eru til. Nú verður maður bara heima, reynir að bíða af sér storminn. En hvað þýðir það fyrir þjóðarbúið ef fólk minnkar mikið við sig í eldsneytiseyðslu. Jú ferðaþjónustan verður ekki eins mikil og vonir hafa staðið til. Velta þjóðarbúsins minnkar. Veltuskattar minnka og þar með tekjur þjóðarbúsins af veltusköttum. Hverslags hugsun er það að hækka á almúgann neysluskatta? Gera hagfræðingar sér ekki grein fyrir því að þá er líklegt að veltuskattar lækki. Tekjur ríkisins minnki.
Fólk eins og ég, sem aldrei vill skulda neinum neitt, stendur sig eins vel og það getur er ofurselt ástandinu eins og allir aðrir. Hverlags djöfulsins staða er þetta eiginlega? Fyrirgefið orðbragðið. Nú og svo var verið að tala við formann læknafélagsins og hún fullyrti að landflótti yrði í læknastétt. Auðvitað koma læknar menntaðir erlendi ekki heim í þetta andstyggðar óvissuástand.
Svo verðum við örugglega sett í það helsi að settir verða á okkur eignaskattar. Þá getur maður sig ekki hrært, ekki selt neitt en verður að greiða ríkinu fyrir að hafa verið sparsamur og að hafa eytt ævistarfinu í að nurla sér saman fyrir jörð, sem nú er óseljanleg nema e.t.v. á brunaútsölu.
Já lífið á Íslandi er ekki spennandi þessa dagana þó ég eigi ekki að kvarta, enda aldrei tekið rándýr neyslulán. Finnst nú nóg samt.
Bensínið aldrei dýrara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tungufljótsdeild stofnuð í Veiðifélagi Árnesinga
27.5.2009 | 18:57
Í gærkvöld þann 26. maí 2009, samþykktu veiðirétthafar í Tungufljóti að stofna veiðideild í Veiðifélagi Árnesinga. Eftirfarandi var samþykkt:
Veiðiréttarhafar í Tungufljóti, frá fossinum Faxa að ármótum Hvítár (26 jarðir) samþykkja að stofnuð verði veiðideild (Tungufljótsdeild) í Veiðifélagi Árnesinga.Fyrir fundinum lá einnig tillaga að samþykktum fyrir Tungufljótsdeild en hún fékkst ekki samþykkt það vantaði tvö atkvæði uppá að 2/3 hlutar veiðirétthafa segðu já við samþykktunum. Mér fannst mjög sérkennilegt að þegar fyrir liggur að deildin sé orðin til, þá geti fólk ekki samþykkt lög fyrir deildina. Á meðan samþykktir eru ekki til þá hefur stjórnin ekki möguleika á að leigja ána út hvað þá að geta gert ræktunaráætanir og slíkt. En við höldum bara annan fund fljótlega og þá þarf ekki nema helming atkvæða til að samþykkja samþykktirnar. Þetta tefur málið aðeins en ekki mikið.
Vilhjálmur Einarsson skammaði mig fyrir að áin er í útleigu. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að undirbúningsnefndin hefur ekki haft neitt umboð til að semja um neitt varðandi veiðimál í Tungufljóti. Undirbúningsnefndin hefur einungis haft það verkefni að búa til löggiltan félagsskap um Tungufljótið neðan fossins Faxa, annað hefur ekki verið verkefni hennar. Ég benti fundarmönnum á að úr því að samþykktirnar náðu ekki í gegn, þá hefur stjórn veiðideildarinnar mjög takmarkað umboð til að taka á málum í Tungufljóti. Getur ekki samið um veiði í ánni, fiskirækt, né neitt annað. En það kemur fljótlega, þegar samþykktir fyrir Tungufljótsdeild hafa verið samþykktar. Við tökum okkur svona hálfan mánuð í það.
Loksins eru millifærslurnar rannsakaðar
20.5.2009 | 14:36
Ég er alveg viss um að inni í bankakerfinu, eru upplýsingar um millifærslur fjármagns sem ekki þóttu eðlilegar. Oft hafa komið upp slík mál í fréttum, bent á stór lán til eigenda bankanna o.fl. o.fl.
Ábendingar höfðu borist um það þegar fyrir áramót en náin tengsl samstarfsaðila og vináttu og fjölskyldubönd hafa örugglega latt þá sem vildu koma upp um vafasamar millifærslur. Svo vissu menn bara ekki hvernig átti að taka á slíkum ábendingum og örugglega enginn lagarammi fyrir hendi til að kæra menn. Gott að loksins skuli hafa verið fenginn fagaðili til að taka á málinu. Vonandi er það ekki of seint.
Rannsaka óeðlilegar millifærslur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tröppurnar á Torfastaðakirkju standast ekki karla sem saga og brjóta og rífa upp gangstéttar
18.5.2009 | 10:22
Við Torfastaðahjón vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þegar kl. 9:30 upphófst mikill hávaði, her manna mættur að kirkjunni og beytti steinsögum og sleggjum á kirkjutröppurnar. Þeir rifu líka upp gömlu stéttina og sú nýja er einnig undir. Sennilega tíu ungir karlar sem tala sumir framandi mál eru hér fyrir utan á tveimur bílum vopnaðir allskonar tækjum og tólum. Nú brjóta þeir og bramla. Þetta eru greinilega öflugir karlar að sunnan komnir til að taka til í kirkjugarðinum á Torfastöðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ánægjuleg sjóðheit Eurovisionhelgi afstaðin. Ég þakka yndislega daga með fjölskyldunni.
18.5.2009 | 09:15
Helgin var afar ánægjuleg hjá mér. Veðrið sólríkt og heitt, í gær voru 18 stig hér í Tungunum. Líka í Reykjavík á meðan við dvöldum þar.
Fannar og Margrét buðu okkur í dásamlegan mat á laugardagskvöldið og við horfðum á Jóhönnu Guðrúnu preforma, svaka vel gert hjá henni, alveg óaðfinnanlegt. Svo fylgdumst við með stigagjöfinni og vorum stolt yfir að vera Íslendingar. Það er langt síðan hægt hefur verið að fyllast þjóðarstolti svo það var mjög gaman. Íslendingar áttu mikið að þakka Jóhönnu Guðrúnu þessa helgina. Stormur var mikill gleðigjafi eins og alltaf, leik við hvern sinn fingur yfir sönglagakeppninni.
Fórum og hittum Bíbí áður en við renndum okkur úr bænum, hún er á St. Jósefsspítala til rannsóknar. Verður vonandi komin heim innan nokkurra daga.
Sigga og Gunnar hafa verið í bústaðnum um helgina og við kölluðum á þau í mat á sunnudagskvöldið. Það var alveg ómögulegt að vera inni, svo við borðuðum í æðislegu veðri úti og sátum þar til tæplega 22:00 en þá vorum við að tapa sólinni bak við heiðina. Sigga dásamaði verðrið og benti á að enn væri bara 17. maí, þjóðhátíðardagur Norðmanna. Í tilefni af því var myndin tekin. 18 stiga hiti, sól og blíða í allan dag. Ummmm.
Gott svar hjá Jóhönnu þótt ég skilji ekkert hvað hún er að segja.
12.5.2009 | 00:52
Ég tek það fram að ég er samherji Jóhönnu og að ég styð hana heilshugar. Verð þó að segja að svar hennar um skattahlutfall 2005-2007 segir mér ekki mikið. Ég held að skattar verði miklu minni en 35% þetta árið nema að skattalögum verði breytt. Veltuskattar hljóta að verða miklu minni og útsvar og staðgreiðsla líka. Það þýðir að leggja þarf á nýja skatta. Hátekjuskatta og eignarskatta. Aukna neysluskatta auk einhverra skatta sem ........
Mörg okkar eru að reyna að standa okkur hafa ekki tekið þátt í tryllingnum sem hefur riðið yfir landi. Ég hef t.d. dregið úr neyslu eins og ég get, en með því greiði því minni neysluskatta. Það er í sjálfu sér tíveggjað fyrir samfélagið.
Ég skil ekki hagfræðina í því að negla okkur sem erum að reyna að standa okkur, upp við vegg og láta okkur hanga á horriminni, greiða litla veltu og neysluskatta. Legg því til að við reynum að auka veltuna og látum skattana koma inn í ríkissjóð og til sveitarfélaganna á þann hátt.
Ég bið stjórnvöld setja okkur heiðvirða íbúa landsins ekki alveg í klemmu sem við sjáum ekki hvernig við geutum komið okkur út og setja okkur þar að auki í skattaþrældóm. Eiganarskattur af venjulegum sparnaði var og er ósanngjarn. Fólk er skattlagt ef það eyðir ekki sparnaði sínum jafnóðum heldur leggur til hliðar og eykur eignir. Hvaða sanngirni er í því að skattleggja þá sem eyða ekki öllum sínum sparnaði í sumarferðir t.d. til útlanda?
Er eitthvert réttlæti í því að mismuna fólki sem leggur sparnað sinn til hliðar og gerir úr honum eignamyndun? Hvaða sanngirni er í því að leggja á þetta fólk eignarskatt?
Skattar svipaðir og 2005-2007 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tungnaraddir undirbúa útrás til Berlínar
11.5.2009 | 23:50
Við erum bara lítill kór en ætlum okkur stóra hluti. Erum að undirbúa þá. Útrás og Evrópusigrar í Berlín.
Það var afar gaman hér á Torfastöðum í kvöld. Tungnaraddir héldu æfingu og Tobba sá um hana. Þau æfðu Brynjólfsmessu Gunnars Þórðarsonar. Ég er alveg þegjandi hás og gat ekkert sungið með þeim og svo er ég líka með hitavellu. Dingaði mér bara í húsinu tók nokkrar myndir til að setja á bloggið mitt.
Sé ekki hvernig ég á að geta kennt á morgun svona þegjandi hás, nema að kraftaverk eigi sér stað í nótt öll hálsbólga hverfi.
Eftir æfinguna röbbuðu ferðanefnd og stjórn saman og tekin staðan. Hverjir koma með kórnum og spila, og svo þetta með einsöngvarana, t.d. Egill Ólafs. Þessi mál ekki alveg ljós. Beðið er eftir okkur með eftirvæntingu í Berlín svo það er eins gott fyrir okkur að koma málum fljótlega á hreint. Fyrir nokkrum mánuðum töldu menn auðvelt að komast með á lofbrú Flugleiða en það er ekki eins öruggt núna. En menn munu finna útúr því. Raggi sveitó er að vinna í málinu skv. nýjustu upplýsingum. En æfingin gekk vel hjá þeim sem gátu sungið og henni Tobbu sem sá um að stjórna æfingunni. Þökkum henni öll sem einn.
Stærsti kór sögunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skoðunum fækkað hjá eldri konum
11.5.2009 | 09:20
Svona til gamans og ykkur að segja þá skaut í huga minn að skoðanir eldri kvenna væru færri, en áður hafði verið, skoðunum eldri kvenna hefði fækkað.
Mér datt ekki í hug að það væri verið að fækka fjölda skoðana á eldri konum í krabbameinseftirliti fyrr en ég las greinina.
Skoðunum eldri kvenna fækkað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggleti á Torfastöðum
11.5.2009 | 08:42
Ég hef ekki skrifað neitt hér í tvær vikur. Það hefur verið svo mikið að gera og gaman. Uppúr stendur afmælisboð þann 30. apríl, sem við fengum frá Páli og Steinunni. Þau buðu fljöskyldunni í Perluna og við áttum þar saman mjög skemmtilegt kvöld, góður matur og svo kom Gunnar sonur þeirra óvænt heim. Enginn átti von á því.
Ég gekk í Hlíðaskóla 13 og 14 ára, í 1. og 2. bekk. Nokkrir hressir og framtakssamir samnemendur mínir þar kölluðu árganginn saman og hittumst við á föstudagskvöldið. Ég var alveg ákveðin í að mæta, en fann að ég var að verða lasin á föstudeginum. Lét það ekki á mig fá, dreif mig á samkomuna og ég sé ekki eftir því. Hitti þarna fólk sem mér hafði þótt mjög vænt um á unglingsárum mínum og ber enn mjög hlýjar tilfinningar til. Verst að ég tók ekki myndir en ég vona að aðrir setji myndir á síður hjá sér, þá get ég e.t.v. stolist í þær. E-bekkurinn mætti mjög vel aðeins örfáir sem ekki komu. Mjög ánægjulegt og ég er fegin að ég gaf ekki eftir að fara þó ég fyndi að ég væri komin með hita.
Hef verið veik alla helgina. Mikill hiti, hálsbólga og kvef.
Fannar og Stormur komu austur, Margrét er að leggja lokahönd á ritgerðina sína og vill gjarnan frá frí frá syninum. Eldur og Guðrún mættu líka. Mig langaði auðvitað að elda þótt erfitt væri vegna lasleika. Gerði það og maturinn var hafðbundin Torfastaðamáltíð. Fyrr um daginn höfðu Eldur og Fannar hjálpað pabba sínum að skilja hryssurnar að frá tryppunum. Tryppin fóru niður í brennu en hryssurnar standa hér fyrir neðan og eru í alltaf sjónmáli þar sem þær eru fylfullar.
Tvær hryssur köstuðu á föstudaginn Mardöll og Sýrný, báðar með vindóttar hryssur undan Goðreki frá Torfastöðum. Ég set inn myndir af þeim þegar ég hressist. Randalín var hjá Huginn frá Haga kom heim í gær.
Ég er enn að vinna í undirbúningi á stofnfundi Tungufljótsdeildar en ég ætla að boða til fundar þann 26. maí n.k.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)