Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Lyngdalsheiðarvegur, umfjöllun Landverndar bull og þvæla.

Mér blöskrar svo þetta kosningabull.  Vegstæðið sem um ræðir kemur aldrei inní Þjóðgarðinn, því hefur það engin áhrif á hann.  Lyngdalsheiðarvegur er tenging milli Laugarvatns og Þingvallasveitar sem nú verður heilsársvegur en ekki sumarslóði eins og Gjábakkavegur er.  Ef menn vilja í framtíðinni gera veg til Reykjavíkur án þess að fara um þjóðgarðinn þá kemur Lyngdalsheiðarvegur ekki í veg fyrir slíka framkvæmd.  Það er bara ný ákvörðun um nýtt vegstæði sunnan Þingvallavatns. Ef Landvernd vill vinna að slíkri framkvæmd á ég von á að hún fái fullan stuðning sveitarstjórna Uppsveitanna á vegi sunnan Þingvallavatns.
mbl.is Hvetja til þátttöku í kosningu um Gjábakkaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjábakkavegur, Lyngdalsheiðarvegur

Ýmsir hafa bullað mikið um nýjan veg milli Laugarvatns og Þingvalla.  Árið 2002 hóf sveitarstjórn vinnu við að láta skipuleggja heilsársveg milli Þingvalla og Laugarvatns enda svæðin þá sameinuð í eitt sveitarfélag.  Núverandi vegur var og er aðeins sumarleið, opinn þrjá mánuði ársins.  Það vantaði og vantar enn, heilsársveg um svæðið, veg sem hægt er að aka allan ársins hring. 

Á núverandi vegi verða flest slys á landinu, hæst slysatíðni, skv. upplýsingum Vegagerðarinnar.  Það var ekki viðunandi. 

Það yrði ekkert minni umferð um Gjábakkaveg, þótt  núverandi vegur yrði hækkaður og lagfærður.  Krafan var og er að fá nútímalegan veg, beinan og hættulítinn. 

Áróður spekinga um að eitt vegstæði mengi minna en hitt er þvæla og ekki svara verð.

Fullyrðingar um að nýr vegur setji heimsminjaskráningu Þingvalla í hættu er líka bull, enda hefur UNESCO alltaf haft upplýsingar um það, að byggja ætti nýjan veg í nýju vegstæði. Sá vegur kemur hvergi inn í þjóðgarðinn. 


mbl.is Almenningur segi álit sitt á Gjábakkavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðferð fyrir ungmenni í vanda

"Eitthvað stendur til" í meðferðarmálum ungmenna, en á meðan hefur fjölda meðferðarstaða verið lokað.  Skjöldólfsstaðir stóðu til, í ein tvö ár. Svo setti Barnaverndarstofa þá á fót en lokaði skömmu síðar eftir stutt starf.  Hvítárbakki náði að starfa í 9 ár, en Inga og Sigurður hættu síðastliðið haust og nokkrum mánuðum síðar var staðnum lokað.  Meðferðarheimilið Torfastöðum hætti eftir 25 ára starf í lok árs 2004.  Rekstur Háholts var auglýstur laus til umsóknar fyrir fáeinum vikum. 

Vinna við að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra er alveg hrikalega erfið og vandasöm, einkum þegar börn eiga við alvarlegan hegðunarvanda að stríða.  Það þarf mjög þjálfað og öflugt fólk í slíka vinnu. Reynslan sýnir að Barnaverndarstofu hefur ekki verið umhugað um að halda í mikla reynslu og færni fólks í meðferðarmálum ungmenna, en stofan leggur áherslu á eitthvað nýtt. 

Hvað er gert fyrir ungmennin sem eiga í vanda í dag á meðan beðið er eftir MST kerfinu?  Fréttir og nýbirtar rannsóknir um aukinn vanda ungmenna eru ægilegar.

Barnaverndarstofu hefur stefnt að því í mörg ár að setja á fót MST meðferðarkerfi.  Um það ræddu starfsmenn hennar við okkur á Torfastöðum, fyrst árið 1999.  Síðan eru liðin 9 ár.  Loksins hefjast þeir handa.  Skjöldólfsstaðir var hugarfóstur BVS og þeirra verk.  Hætt var rekstri stuttu eftir opnun. Vonandi gengur næsta verkefni Barnaverndarstofu betur.


mbl.is Fjölþáttameðferð vegna hegðunarvanda barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hilmar Örn og Barna-og Kammerkór Biskupstungna

Ég var á sveitarstjórnarfundi í gær.  Er alltaf að reyna að opna augu fólks fyrir því að meta og dá störf Hilmars Arnar sem hefur verið kórstjóri í Biskupstungum síðar Bláskógabyggð undanfarin 17 ár.  Oddvitinn, sem er ekki meðflokksmaður minn, hefur hvað eftir annað að orði um mig að hann sé mjög hissa á mér að vera sífellt að tala um hann Hilmar og flotta barnakórastarfið hans.  Hann er ekki sammála mér um barnakórastarfið, finnst það ekkert merkilegra en annað starf með börnum.  

Við erum svakalega ósammála og ég þakka guði fyrir að börnin mín fengu að njóta Hilmars Arnar þegar þau voru í Reykholtsskóla.  Að örðum ólöstuðum þá minnist ég þess ekki að neinn annar hafi lagt meira af mörkum til uppeldis og þroska barnanna í Tungunum/Bláskógabyggð undanfarin 17 ár og Hilmar Örn Agnarsson. 

Nú eru störf Hilmars í hættu hann þarf á því að halda að störf hans séu metin að verðleikum.  Foreldrar hafa óskað eftir því að hann starfi að eflingu kórastarfsins innan veggja Grunnskóla Bláskógabyggðar (áður Reykholtsskóla) og að börnin fái að njóta hans áfram í öflugu kórastarfi.

Ég er voða hrædd um að samfélagið sé að tapa Hilmari Erni.  Veit að margir skólar og samfélög öfunda okkur af Barnakór Biskupstungna og langar að njóta hæfileika Hilmars til að byggja upp sambærilegt starf með börnum sínum.  Það verður slegist um Hilmar Örn ef hann sér sér ekki fært að leyfa okkur að njóta starfskrafta hans áfram í Bláskógabyggð.


Miðborgin, gömul hús

Hef átt húseign í miðborginni síðan 1972.  Þá þótti glapræði að kaupa sér íbúð í gömlu niðurnýddu timburhúsi.  Breiðholtið og steinsteypan var viturlegri fjárfesting að mati flestra.  Nú er húseign mín allt í einu mikils virði fyrir fjárfesta sem vilja byggja ný hús.  Þeir bjóða gull og græna skóga til að fá lóðir í miðbænum en vilja rífa gömlu húsin sem eru á lóðunum.

Var í stjórn Torfusamtakanna, þegar Vilmundur Gylfason heitinn þáverandi menntamálaráðherra friðaði Torfuna.  Mikill sigur og í kjölfarið var Torfan gerð upp og verndarsjónarmið í miðbænum urðu ríkjandi.

Peningar eru freisting þeim sem fá há tilboð í eignir sem áður voru ekki mikils virði.  Þarf ekki að stofna sjóð sem kaupir eignir fólks sem vill selja gömul hús á því verði sem nú er boðið í húsin? Verndarsjóð gamalla húsa sem mikilvægt er að varðveita. 


mbl.is 37 auð hús í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyngdalsheiðarvegur verður heilsársvegur.

Við Uppsveitarfólk í Árnessýslu höfum beðið lengi eftir heilsársvegi um Lyngdalsheiðina.  Núverandi vegur er hættulegasti vegur landsins, þar eru langflest slys og skemmdir.  En samt eru afturhaldsseggir eins og Pétur M. Jónsson og fleiri sem ætlast til að við, sem búum í Uppsveitunum, þurfum ekki að hafa eðlilegar nútímalegar samgöngur. Þingvallasveitin valdi að sameinast Laugardalshrepp og Biskupstungum árið 2002 og við það lagði sveitarstjórn mikla áherslu á að bæta samgöngur innan sveitarfélagsins. 

Fram að þessu hefur einungis verið hægt að aka afburða lélegan veg um Lyngdalsheiðina, þrjá mánuði ársins. Á veturna er leiðin ófær og lokuð. 

Rök andstæðinga um að útsýni verði skert er út í hött, því fólki verður gert mögulegt að aka stuttan spöl og stoppa til að njóta útsýnisins.  Það er líka ósannindi að segja að vegurinn færist nær vatninu.  Væntanlegur vegur tengist núverandi vegi úr Grímsnesinu hjá Mjóanesi.  Það er miklu fjær vatninu en núverandi Gjábakkavegur er.

Stjórn þjóðgarðsins getur takmarkað umferð um Þjóðgarðinn við fólksflutninga og ætlar að ekki að leyfa aukinn hraða.  Nú má aka á 50 km hraða.  Sveitarstjórn hefur alltaf lýst sig tilbúna til að samþykkja slikar reglur.


mbl.is Lyngdalsheiðarvegur boðinn út í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyngdalsheiðarvegur loksins boðinn út.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti strax eftir kosningar 2002 að með fyrstu verkum hennar yrði að leggja áherslu á að fá heilsárs veg milli Þingvallasveitar og Laugardals.  Vonast var til að verkframkvæmdum yrði lokið fimm árum seinna eða 2007.  Þá voru liðin 100 ár frá því að fyrsti vegur landsins var lagður þar sem nú er Gjábakkavegar, en vegurinn kallaðist áður Kóngsvegur.  Stefnt var að því halda hátíð í tilefni 100 ára afmæli vegagerðar á Íslandi með opnum nýs Lyngdalsheiðarvegar. 

Vinna við undirbúning vegarins hefur dregist úr hömlu en nú hefur öllum skilyrðum verið fullnægt til að hægt sé að hefja framkvæmdir. 

Þingvallasveit ákvað að sameinast Laugardalshreppi og Biskupstungum vorið 2002 og var forsenda þeirrar sameiningar að vegsamband yrði allt árið en ekki bara í þrjá mánuði (sumarmánuðina) á milli Þingvalla og Laugardals.  Nú er draumur íbúa Þingvalla að verða að veruleika.  Öllum formlegum skilyrðum hefur verið fullnægt og nú er ekki eftir neinu að bíða. 

Núverandi Gjábakkavegur liggur í vegstæði Kóngsvegar. Þegar bílar hætta að aka um gamla Kóngsveginn þá er hægt að friða hann og vernda. Kóngsvegurinn getur aftur orðið reiðvegur. Með því sýnum við sögunni og verkmönnum fortíðar virðingu okkar.


mbl.is Hvetur ráðherra að breyta fyrirhugaðri staðsetningu Gjábakkavegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband