Færsluflokkur: Bloggar

Hvað skal segja?

Það hefur verið svo gaman undanfarið að ég hef ekki gefið mér tíma til að setjast niður og skrifa. Að loknu Landsmóti hestamanna fórum við að huga að heyskap og nú eru 350 rúllur komnar í plast.  Óli hirðir þær hratt enda ríkir sú kenning hér á Torfastöðum að verkun heysins verði miklu betri ef ekki er verið að hreyfa rúllurnar eftir að verkun í þeim hefur hafist.  Því eru allar rúllur að komast í stæður. 

Veðurblíðan hefur dregið gesti og fjölskyldumeðlimi að Torfastöðum undanfarnar vikur.  Mikið er um að vera í reiðmennsku, en Jens fór þó fyrr en vænst var, enda er hann enn að syrgja nýlátinn bróður sinn.  Hann kemur bara aftur næsta sumar.  Fannar temur hross og Sólon líka og svo eru Sigtryggur og Davíð góðir hjálparmenn þeirra.  Kristinn Bjarni er líka kominn á heimaslóðir og er að sinna börnum og hrossum.  Heimilislífið er því fjörugt, þrjú ung börn tvennir foreldrar þeirra, við afi og amma og svo er amma Bía líka á staðnum.  Hún var í sumarbústaðnum með Gunnari og Siggu ásamt Dídí um helgina og kom svo hingað í gærkvöld.

Í gær fengum við heimsókn fjölda manna sem æfðu sig á hestum og fengu vöfflur og rjóma.  Eldur tók á móti væntanlegu tengdafólki sínu.  Mjög skemmtilegt.  Nú verður rigning í dag svo ég lít frekar á tölvuna til að blogga.

Sumarhúsalóðirnar eru komnar í sölu og búið er að gera samninga við nokkra eigendur sumarhúsa hér á Torfastöðum.


Vanrækt börn

Mæðravernd og eftirlit með nýfæddum börnum hefur átt sér stað hér á landi, eins lengi og ég man.  Ljósmóðirin kom heim til mömmu, mældi og skoðaði systkini mín og gaf góð ráð. Svo kom að mér að eignast börn.  Það var tilhlökkun í að fá ljósmóðurina í heimsókn.  Eftirlitið kemur í veg fyrir að börn séu vanrækt og jafnvel drepin.  Væri ekki vert að kynna Áströlum barnaeftirlitið okkar og hvetja þá til að koma slíku eftirliti á hjá sér. 


mbl.is Sveltu börn sín til bana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

18. júní 2008

Var á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar áðan.  Önnur umræða um breytta fjárhagsáætlun var aðaldagskrárefni fundarins.  120 milljónir teknar að láni til að koma kaldavatnsmálum sveitarfélagsins í betra horf.  Í Bláskógabyggð búa tæplega 1000 manns en sumarhúsin eru a.m.k. tvö þúsund og allir þurfa kalt vatn.  Lög og reglugerðir kveða á um að sumarhúsahverfi og atvinnurekstur verði að hafa vottað vatn.  Hér á Torfastöðum hefur okkur ekki staðið til boða að tengjast vatnsveitu sveitarfélagsins svo við höfum verið reynt að koma okkur upp eigin kaldavatnsveitu, safnað vatni í stóran tank og höfum lagt í miklar framkvæmdir til að reyna að bjarga okkur.  Sumarið í fyrra var afbragðsgott, en það rigndi ekkert í langan tíma og við vorum alveg dauðhrædd um að verða vatnslaus.  Það slapp fyrir horn en margir urðu vatnslitlir og sumir sveitungar okkar alveg vatnslausir.  Ingibjörg og Grímur á Syðri-Reykjum urðu að dæla vatni úr Brúaráinni til að framleiðsla þeirra í gróðurhúsunum eyðileggðist ekki.  Þvílíkt stress. Nú liggur fyrir að sveitarfélagið ætlar að koma miðsveit Biskupstungna til bjargar, tengja Tjörn, Syðri-Reyki, Miklaholt, okkur og Laugarás.  Kýrnar fá vottað vatn, og sumarhúsaeigendur líka.  En framkvæmdin er dýr enda landið sem þarf að fara um stórt og víðáttumikið.  Það skreppur ekki saman hvernig sem reynt er að stytta leiðir kaldavatnsleiðslunnar.

Sett eru lög og reglur um vatnsgæði, kröfurnar miklar en í sveitarfélagi eins og Bláskógabyggð, sem er víðáttumikið og fámennt er dýrt að verða við þeim kröfum sem settar eru.  Jöfnunarsjóður ætti að hafa það hlutverk að jafna hlut sveitarfélaganna að þessu leyti, enda miklu hagkvæmara að tengja vatnsveitur í þéttbýli en í dreifbýli.


Mikið og skemmtilegt annríki

Undanfarnir dagar hafa verið mjög skemmtilegir, hef verið að undirbúa veislu fyrir lilla minn, yngsta soninn sem er að útskrifast með BS gráðu í jarðfræði á morgun.  Hann vill vera fyrir sunnan með veisluna svo ég elda hér og verð svo að koma öllu suður, stólum, diskum, áhöldum, mat.  Þetta er bara gaman en mikil heilabrot svo að ekkert gleymist.  Veðrið hefur verið alveg yndislegt undanfarna daga, hrossin glöð að vera úti og hér er allt í blóma.

Björt útskrifaðist í Svíþjóð á þriðjudaginn var.  Í dag eru hún og Birgir að fara í frí til Ítalíu.  Svo fæ ég að halda henni veislu þann 28. júní hér á Torfastöðum.  Þvílík hamingja. 

Í dag verður Gautrekur frá Torfastöðum sýndur í Hafnarfirði og Hjálprekur frá Torfastöðum fór í kynbótasýningu á miðvikudaginn var, ef ég man rétt.  Hann á eftir að fara í yfirlitssýninguna, hún verður í dag.  Verst að ég get ekki sýnt myndir, því ég hef svo mikið að gera, að ég kemst ekki til að fylgjast með sýningunum og tek því engar myndir.  Synd.

En gleðinni fylgir oft líka sorg, fékk fréttir um að Ólafur faðir Sigrúnar mágkonu minnar hefði látist í vikunni.  Ég votta aðstandendum mína dýpstu samúð.


Ríkidæmi.

Ég þakka stöðugt fyrir hvað ég nýt mikillar hamingju og velgengni.  Yngsti sonur minn spurði mig oft, þegar hann var lítill (nú er hann er að verða 23ja ára) hvort ég væri rík.  Svaraði honum alltaf að enginn væri ríkari en ég.   Í framhaldi af því spurði hann mig hvort við ættum mikið af peningum. Hann fékk það svar að ríkidæmi mitt væri hann og systkini hans.  Hann sem lítill drengur átti stundum bágt með að skilja hvaða ríkidæmi ég væri að tala um.  Mitt ríkidæmi var og er algjört, enginn ríkari en ég.  Ég er eins rík og nokkur getur orðið.  Vildi óska að allir væru eins ríkir og ég er.  Hef ekki bloggða í nokkra daga en ætla að gera bragarbót á því.  Margt til umræðu sem vert er að ræða.


Skálholt, tónleikar í kvöld.

Skálholtskór Ítalíuferð 28. 7 - 2. ágúst 2007 064Skálholtskórinn hefur æft tvisvar undir stjórn Steingríms en hann ætlar að koma með kórinn sinn og halda tónleika í Skálholti kl. 18:00 í dag.  Vildi fá okkur til að syngja með.  Það hefur verið mjög ánægjulegt að æfa prógrammið frá Ítalíuferðinni í fyrra tilhlökkun að hitta kórinn hans Steina. Við höfum verið að rifja upp ýmsa atburði, Pompei ferð og söng eftir langa göngu í miklum hita.  Ég hugsa oft til Napolí og ruslsins sem var um allar götur. 

Hvet fólk til að koma á hljómleikana, gott að njóta kyrrðarinnar við góðan söng í Skálholti í kvöld, eftir lætin í gær, þ.e. jarðskjálftann. 


Jarðskjálftinn mikill hér á Torfastöðum

Rosa skjálfti hér í Tungunum.  Hélt að Hekla væri að hefja gos. Ætla að hlusta á fréttirnar heyra hvar uppruni skjálftans er.
mbl.is Afar öflugur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært veður á Torfastöðum, í dag og næstu daga.

Býð öllum í Bláskógabyggð að njóta veðurblíðunnar í dag og næstu daga. Það er alveg svakalega gott veður.  Svitnaði um leið og ég fór út, glampandi sól.  15 stiga hiti og sól er nú í Skálholti, Gullfossi og Hjarðarlandi, veðurathugunarstöðunum hér. Á Þingvöllum er líka 15 stiga hiti. Varð bara að láta vita þá sem lesa bloggið mitt og vilja koma í Uppsveitirnar í dag og næstu daga.

Vorverkin gleðja.

Vorverkin hafa tekið yfir undanfarna daga og þegar ég lauk því að hræra upp skítinn í haughúsinu, dreif ég í að ljúka bókhaldinu og skila því til endurskoðandans.  Alltaf léttir þegar það er af. Nú hlakka ég til að halda áfram með vorverkin.  Hryssurnar eru að kasta þessa dagana, fjögur folöld komin og á föstudaginn kemur haugsugan og dreifir skítnum.

Kynbótasýningarnar halda áfram, Hjálprekur, 5 vetra stóðhestur frá okkur fer í dóm á föstudaginn kemur fyrir norðan, Tryggvi sýnir hann.  Svo mætir Gautrekur í dóm í Hafnarfirðinum.  Hrist fer e.t.v. líka í dóm, við sjáum til.

Kristinn Bjarni og Berglind eignuðust dreng fyrir fjórum dögum og Gunnur Líf telpu þann 20. júní.  Allir heilbrigðir og hressir.  Óska þeim öllum innilega til hamingju.  Gunnur Líf bauð í skírn á sunnudaginn kemur og auðvitað mætum við í Garðabæinn. 

Svo eru það útskriftaveislur hjá Eldi og Björt.  Eldur ætlar að halda sína í bænum þann 14. júní, útskriftardaginn, en Björt þann 28. júní hér á Torfastöðum. Nú þarf að fara að hugsa fyrir því. Gaman.


Grænmeti íslenskt, erlent?

Ég hef alltaf verið mjög pirruð á því að innflytjendur reyna að plata neytendur þegar þeir kaupa grænmeti.  Reyna að gera grænmetið íslenskt þótt það sé erlent. Fyrirtækið Hollt og gott hefur verið í fararbroddi í þeim efnum, pakkar vörum sínum þannig að flestir sem ég þekki halda að þeir séu að kaupa íslenskt þegar þeir kaupa voru pakkaða af Hollu og góðu. 

Undanfarið hafa íslenskir framleiðendur gert mikla bragarbót í sínum merkingum og mér finnst verða að gera öllum skylt að merkja hvaðan varan kemur.  Húrra fyrir Árna Johnsen að vekja athygli á málinu og nú þarf skýrar reglugerðir fyrir innflutningsaðili svo þeir hætti að plata fólk til að kaupa erlent grænmeti í þeirri trú að það sé íslenskt.  Neytendur varið ykkur.


mbl.is Merkingar grænmetis skoðaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband