Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
Lífsins vatn.
26.6.2008 | 09:48
Gæðum heimsins er misskipt. Hér í Biskupstungunum er hlýtt, sól og blíða og svo hellast yfir okkur gróðrardembur seinnipart dags. Svona hefur veðrið verið alla vikuna. Gróðurinn þýtur upp. Vorkenni þeim sem njóta ekki alls eins og við. Ég get ekki nógsamlega þakkað lífsgæðin þessa dagana. Í nótt fór ég að sinna hrossum, þá var úðarigning og sól um miðja nótt og regnboginn lá yfir Torfastöðum. Þvílík fegurð. Gæti vel unnt Vestfirðingum að fá einhverja vætu frá okkur.
Bændur víða langeygir eftir vætu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.7.2008 kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Torfastaðablíða, fjör og gleði
25.6.2008 | 08:56
Undanfarnir dagar hafa verið hreint unaðslegir hér á Torfastöðum. Sól, hiti og svo hellidembur fyrir gróðurinn. Hitinn orðinn fimmtán stig og klukkan rétt að verða 9 að morgni. Mikið að gera hjá mér og voða gaman. Ætlum að halda veislu nr. 2 í þessum mánuði á laugardaginn, útskriftarveislu. Erum að hamast við að lagfæra það sem lagfæra þarf taka til og snurfusa. Elda og versla inn. Eigum von á tugum gesta á laugardaginn.
Sumarhúsaeigendur fá þvílíka blíðu ég vona að sem flestir njóti þess og hafi gaman af að vera í sumarbústöðunum sínum. Hestarnir eru glaðir í þessu veðri og nú er von á Jens frá Svíþjóð en hann ætlar að fá að þjálfa sig og hrossin hjá okkur í sumar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvolpasagan
24.6.2008 | 08:38
Ég velti því fyrir mér fyrst þegar ég sá frétt um hvolpinn, hvort sá sem lagði hann til í hrauninu hafi ekki haldið að hundurinn væri dauður. E.t.v. hafi hann ekið á hundinn, hann virst dauður og þá hafi sá sem slasaði hundinn urðað hann. Nú þori sá hinn sami ekki að segja frá og eigandinn orðinn sakborningur í augum almennings. Það er hægt að slasa hundinn illa við að aka á hann án þess að hann þurfi að brotna.
Upphrópanir um ljótt fólk hefur verið fylgifiskur fréttarinnar um hundinn og allir tilbúnir að dæma illmennin.
Eigandi hvolpsins yfirheyrður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Brynja og "Hárið" 1971
23.6.2008 | 10:40
Ég votta Erlingi og fjölskyldu Brynju mína dýpstu samúð. Hef dáð Brynju síðan ég fékk að kynnast henni árið 1970 en þá setti Leikfélag Kópavogs upp söngleikinn Hárið og Brynja leikstýrði. Ég lék og söng og hafði mikla ánægju af að fá að vinna undir leikstjórn Brynju. Hún var stórbrotin kona og allt sem hún gerði vakti aðdáun mína. Hún og Erlingur hvöttu mig á sínum tíma til að fara í leiklistarnám og þótti mér mikill heiður af því að fá hvatningu þeirra þótt ekkert yrði úr leiklistarnámi hjá mér.
Hlustaði á viðtal við Brynju í útvarpinu fyrir nokkrum dögum og hafði mikla ánægju af. Þar rifjaði hún upp ýmsa hluti úr lífi sínu sem gaman var að fá hennar sýn á. Nú er Brynja látin, dó á lengsta degi ársins, þegar sólin gengur ekki til viðar. Guð blessi þá sem sakna hennar mest.
Andlát: Brynja Benediktsdóttir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Icelandair á hausnum
23.6.2008 | 00:30
Ég man þegar ungir menn komu og tóku félagið yfir. Það var fyrir fáeinum árum. Hef lítið vit á fjárfestingarfyrirtækjum en fannst mjög skrýtið þegar Flugleiðir var allt í einu gert að fjárfestingarfélagi, fjármagn félagsins hirt og það sett í áhættufjárfestingar. Eftir stóð Icelandair með lítið fjármagn en mikla reynslu og sögu í flugrekstri. Var að vinna hjá Flugleiðum fyrir 38 árum þegar fyrirtækið var stutt af ríkinu með ríkisábyrgð á lánum. Þá þótti mikilvægt að hafa gott bakland þegar á bjátaði. Nú virðast menn halda að aðeins þurfi orðspor til að fyrirtæki geti þrifist. Ég er ekki hissa á því að staðan sé slæm, menn með litlar hugsjónir í flugrekstri tóku fyrirtækið yfir og hirtu fjármagnið úr fyrirtækinu og stunduðu áhættufjárfestingar. Nú verður að draga saman. Er ekki alltaf sannfærð um að samkeppni sé svarið, þótt gott sé að fá ódýr fargjöld. Fyrirtækin verða að hafa rekstrargrundvöll.
Útlit fyrir fjöldauppsagnir hjá Icelandair | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ja nú er ég hissa
20.6.2008 | 20:18
Kom ísbjörn upp um hestana? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vanrækt börn
18.6.2008 | 17:20
Mæðravernd og eftirlit með nýfæddum börnum hefur átt sér stað hér á landi, eins lengi og ég man. Ljósmóðirin kom heim til mömmu, mældi og skoðaði systkini mín og gaf góð ráð. Svo kom að mér að eignast börn. Það var tilhlökkun í að fá ljósmóðurina í heimsókn. Eftirlitið kemur í veg fyrir að börn séu vanrækt og jafnvel drepin. Væri ekki vert að kynna Áströlum barnaeftirlitið okkar og hvetja þá til að koma slíku eftirliti á hjá sér.
Sveltu börn sín til bana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.7.2008 kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18. júní 2008
18.6.2008 | 16:59
Var á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar áðan. Önnur umræða um breytta fjárhagsáætlun var aðaldagskrárefni fundarins. 120 milljónir teknar að láni til að koma kaldavatnsmálum sveitarfélagsins í betra horf. Í Bláskógabyggð búa tæplega 1000 manns en sumarhúsin eru a.m.k. tvö þúsund og allir þurfa kalt vatn. Lög og reglugerðir kveða á um að sumarhúsahverfi og atvinnurekstur verði að hafa vottað vatn. Hér á Torfastöðum hefur okkur ekki staðið til boða að tengjast vatnsveitu sveitarfélagsins svo við höfum verið reynt að koma okkur upp eigin kaldavatnsveitu, safnað vatni í stóran tank og höfum lagt í miklar framkvæmdir til að reyna að bjarga okkur. Sumarið í fyrra var afbragðsgott, en það rigndi ekkert í langan tíma og við vorum alveg dauðhrædd um að verða vatnslaus. Það slapp fyrir horn en margir urðu vatnslitlir og sumir sveitungar okkar alveg vatnslausir. Ingibjörg og Grímur á Syðri-Reykjum urðu að dæla vatni úr Brúaráinni til að framleiðsla þeirra í gróðurhúsunum eyðileggðist ekki. Þvílíkt stress. Nú liggur fyrir að sveitarfélagið ætlar að koma miðsveit Biskupstungna til bjargar, tengja Tjörn, Syðri-Reyki, Miklaholt, okkur og Laugarás. Kýrnar fá vottað vatn, og sumarhúsaeigendur líka. En framkvæmdin er dýr enda landið sem þarf að fara um stórt og víðáttumikið. Það skreppur ekki saman hvernig sem reynt er að stytta leiðir kaldavatnsleiðslunnar.
Sett eru lög og reglur um vatnsgæði, kröfurnar miklar en í sveitarfélagi eins og Bláskógabyggð, sem er víðáttumikið og fámennt er dýrt að verða við þeim kröfum sem settar eru. Jöfnunarsjóður ætti að hafa það hlutverk að jafna hlut sveitarfélaganna að þessu leyti, enda miklu hagkvæmara að tengja vatnsveitur í þéttbýli en í dreifbýli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mikið og skemmtilegt annríki
13.6.2008 | 09:37
Undanfarnir dagar hafa verið mjög skemmtilegir, hef verið að undirbúa veislu fyrir lilla minn, yngsta soninn sem er að útskrifast með BS gráðu í jarðfræði á morgun. Hann vill vera fyrir sunnan með veisluna svo ég elda hér og verð svo að koma öllu suður, stólum, diskum, áhöldum, mat. Þetta er bara gaman en mikil heilabrot svo að ekkert gleymist. Veðrið hefur verið alveg yndislegt undanfarna daga, hrossin glöð að vera úti og hér er allt í blóma.
Björt útskrifaðist í Svíþjóð á þriðjudaginn var. Í dag eru hún og Birgir að fara í frí til Ítalíu. Svo fæ ég að halda henni veislu þann 28. júní hér á Torfastöðum. Þvílík hamingja.
Í dag verður Gautrekur frá Torfastöðum sýndur í Hafnarfirði og Hjálprekur frá Torfastöðum fór í kynbótasýningu á miðvikudaginn var, ef ég man rétt. Hann á eftir að fara í yfirlitssýninguna, hún verður í dag. Verst að ég get ekki sýnt myndir, því ég hef svo mikið að gera, að ég kemst ekki til að fylgjast með sýningunum og tek því engar myndir. Synd.
En gleðinni fylgir oft líka sorg, fékk fréttir um að Ólafur faðir Sigrúnar mágkonu minnar hefði látist í vikunni. Ég votta aðstandendum mína dýpstu samúð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ríkidæmi.
8.6.2008 | 23:42
Ég þakka stöðugt fyrir hvað ég nýt mikillar hamingju og velgengni. Yngsti sonur minn spurði mig oft, þegar hann var lítill (nú er hann er að verða 23ja ára) hvort ég væri rík. Svaraði honum alltaf að enginn væri ríkari en ég. Í framhaldi af því spurði hann mig hvort við ættum mikið af peningum. Hann fékk það svar að ríkidæmi mitt væri hann og systkini hans. Hann sem lítill drengur átti stundum bágt með að skilja hvaða ríkidæmi ég væri að tala um. Mitt ríkidæmi var og er algjört, enginn ríkari en ég. Ég er eins rík og nokkur getur orðið. Vildi óska að allir væru eins ríkir og ég er. Hef ekki bloggða í nokkra daga en ætla að gera bragarbót á því. Margt til umræðu sem vert er að ræða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)