Skemmtileg helgi og nóg verkefni framundan
24.11.2008 | 11:19
Fékk að njóta fjöldkyldunnar um helgina. Fannar og Eldur komu ásamt Margréti og Guðrúnu og auðvitað sólargeislinn hann Stormur. Öll komin austur á undan mér en ég kom heim um kl. 19:00 af flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar.
Flokkstjórnarfundurinn var mjög góður, margir tjáðu skoðanir sínar og sitt sýnist hverjum. Fólk mjög málefnalegt og gaman að því hvað fólk er þroskað og kemur með góð rök fyrir máli sínu. Ekkert neikvætt nöldur heldur málefnaleg og margbrotin umræða. Ég gladdist yfir að sjá hvað Ingibjörg Sólrún lítur vel út og vona að hún hafi komist yfir þá meinsemd sem hrjáði hana. Ég ber alltaf svo mikla virðingu fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og hún stendur algerlega undir væntingum mínum, yndisleg manneskja.
Strákarnir mínir, Fannar og Eldur fóru á bak nokkrum hestum fyrir mig í gær. Ég þurfti að fá að taka myndir og við erum að reyna að koma þeim á video sem hægt er að skoða á netinu. Kann ekkert á þá tækni en er að reyna að læra. Þá get ég sett meira af hestatengdu efni á netið, sýnt video af hestunum okkar.
En nú þarf ég að einhenda mér að Tungufljóti. Er í verkefnanefnd sem fékk það hlutverk að reyna að stofna veiðideild um Tungufljót, neðan fossins Faxa að ármótum Hvítár. Spennandi verkefni. Fimmtudagskvöldið 27. nóv. verður haldinn fundur í Aratungu. Efni fundarins er að stofna veiðideildina og óska eftir að veiðifélag Árnesinga samþykki hana á næsta aðalfundi sínum.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkar: Bloggar, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.