Ég hef nokkrum sinnum lent í svo miklum erfiðleikum að á meðan þeir gengu yfir var erfitt að sjá hvað var handan þeirra. Erfiðast var að þurfa að horfa á slys, þar sem yndislegur drengur og vinur dó. Sú reynsla var hræðileg og kennir manni að ekki er hægt að sjá fyrir öllu og maður verður mjög vanmáttugur.
Svo varð seinna alveg hræðilega erfitt að verða fyrir lygum sem þurfti að berjast gegn, svo lygin og óvildin ylli ekki fjölskyldunni hræðilegum skaða og mannorðsmissi. Það varð verkefni sem þurfti að kljást við og þegar upp var staðið gerðu verkefnin það fyrir okkur að lífið var endurmetið og við það sköpuðust ný tækifæri.
Líf mitt hefur alltaf verið gott. Ólst upp við mikla umönnun og umhyggju. Foreldrar mínir og systkini höfum alltaf átt gott samband, við miklir vinir og félagar.
Börnin mín eru æðisleg, við erum miklir vinir og þau standa sig vel, líður vel og eiga mjög góða vini og maka. Ekkert er mikilvægara en gott samband við þá sem maður elskar.
Stundum hef ég staðið andspænis miklum erfiðleikum. Erfiðleikarnir urðu verkefni sem nauðsynlegt var að takast á við og þegar frá líður hafa þeir skapað ný tækifæri og gert líf mitt ríkara.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var í viðtali áðan, stödd í New York nýkomin úr erfiðri aðgerð og hún sagði einmitt þetta "að erfiðleikar fælu alltaf í sér tækifæri." Nú er bara að sjá tækifærin, grípa þau og láta þau verða til góðs. Munum bara að andbyr þótt erfiður sé, getur alltaf bætt líf okkar, gerir okkur reynslunni ríkari og verðmæti lífsins verða skýrari.
Helgin hjá okkur Torfastaðafjölskyldunni var æðisleg. Björt, Eldur, Fannar, Birgir, Guðrún og Margrét og auðvitað Stormur komu og við borðuðum saman á laugardagskvöldið. Kristján og Ingibjörg foreldrar Guðrúnar komu líka og það var ægilega gaman að hafa þau. Svo fóru allir í veiði. Bændadagar í Tungufljóti og heilmikil veiði þrátt fyrir að áin væri ansi köld. Í byrjun dags alveg við frostmark. Samt fengust 7 laxar og veiðimenn komu glaðir heim.
Ég er lúin eftir helgina en það er bara gaman, vorkenni þeim sem hafa verið á fundum alla helgina að vinna í efnahags-og bankamálum og ekki séð fyrir endann á hvernig fara.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.