18. júní 2008

Var á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar áðan.  Önnur umræða um breytta fjárhagsáætlun var aðaldagskrárefni fundarins.  120 milljónir teknar að láni til að koma kaldavatnsmálum sveitarfélagsins í betra horf.  Í Bláskógabyggð búa tæplega 1000 manns en sumarhúsin eru a.m.k. tvö þúsund og allir þurfa kalt vatn.  Lög og reglugerðir kveða á um að sumarhúsahverfi og atvinnurekstur verði að hafa vottað vatn.  Hér á Torfastöðum hefur okkur ekki staðið til boða að tengjast vatnsveitu sveitarfélagsins svo við höfum verið reynt að koma okkur upp eigin kaldavatnsveitu, safnað vatni í stóran tank og höfum lagt í miklar framkvæmdir til að reyna að bjarga okkur.  Sumarið í fyrra var afbragðsgott, en það rigndi ekkert í langan tíma og við vorum alveg dauðhrædd um að verða vatnslaus.  Það slapp fyrir horn en margir urðu vatnslitlir og sumir sveitungar okkar alveg vatnslausir.  Ingibjörg og Grímur á Syðri-Reykjum urðu að dæla vatni úr Brúaráinni til að framleiðsla þeirra í gróðurhúsunum eyðileggðist ekki.  Þvílíkt stress. Nú liggur fyrir að sveitarfélagið ætlar að koma miðsveit Biskupstungna til bjargar, tengja Tjörn, Syðri-Reyki, Miklaholt, okkur og Laugarás.  Kýrnar fá vottað vatn, og sumarhúsaeigendur líka.  En framkvæmdin er dýr enda landið sem þarf að fara um stórt og víðáttumikið.  Það skreppur ekki saman hvernig sem reynt er að stytta leiðir kaldavatnsleiðslunnar.

Sett eru lög og reglur um vatnsgæði, kröfurnar miklar en í sveitarfélagi eins og Bláskógabyggð, sem er víðáttumikið og fámennt er dýrt að verða við þeim kröfum sem settar eru.  Jöfnunarsjóður ætti að hafa það hlutverk að jafna hlut sveitarfélaganna að þessu leyti, enda miklu hagkvæmara að tengja vatnsveitur í þéttbýli en í dreifbýli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband