Jólin afar ánægjuleg og fjölskylduvæn.

Ég hef verið í bloggfríi í hálfan mánuð.  Ekki skrifað staf bara undirbúið og notið jólanna.  Öll börnin voru heima á aðfangadagskvöld g Margrét og Stormur líka.  Jóladag notaði ég til að undirbúa hefðbundna veislu hér á Torfastöðum sem við höldum alltaf 2. dag jóla.  Það vantaði aðeins 3 í hópinn þau Heru, Magnús og Sölku. Veislan tókst með afbrigðum enda skemmtilegt fólk.  Mikil gleði að fá alla austur ekki síst yngstu fjölskyldumeðlimina. 

Í kvöld verðum við svo öll saman á Öldugötunni hjá Sigrúnu og Fjalari eins og í fyrra.  Þá voru brennur ekki brenndar of mikið rok en við öll á túni Landakotskirkju og þar fengu flugeldar að hefja sig til himins.  Torfastaðafjölskyldan á jólum 2008

Óli gaf hrossunum í morgun svo við vonum að þau verði róleg í kvöld þótt skotið verði rakettum í nágrenninu.  Ég fór á bak þremur hestum í morgun en nú bíður sturtan og bíllinn því mæting er snemma á Öldugötunni.  

Á morgun er hefðbundin nýjársdagsmessa hér á Torfastöðum.  Mæti þar eins og alltaf og óska sveitungum mínum gleðilegs árs. 

Óska öllum vinum og fjölskyldu gleðilegs árs með þökk fyrir allt á liðnum árum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Heil og sæl Drífa,  

   Óska þér og þínum árs og friðar.   Það er gott að vita af góðu fólki á Torfastöðum, því þar var ömmubróðir minn, Eiríkur Stefánsson, prófastur í fjörutíu ár.   Halldór Laxnes dvaldi oft hjá þeim hjónum mánuðum saman og skrifaði þar margar af sínum bestu bókum.

Sjálf man ég vel eftir séra Eiríki, enda skírði hann yngri bróður minn og það var líka afar kært með honum og Hildi ömmu minni.  Hann var flottur maður og mikil týpa.

Ólöf móðir mín var líka í sveit hjá móðurbróður sínum á Torfastöðum, ásamt Jóhannesi Nordal og ýmsum öðrum.

Mér finnst því ég þekkja Torfastaði mun betur en ég í raun geri, v.þ.a. þessi staður er svo lifandi í minningu fjölskyldu minnar.   Farnist þér og þínu fólki vel þar.    Kannski ég líti einhverntímann við hjá ykkur með mömmu.   Hún er 88 ára en eldhress og stálminnug.   Það gæti verið gaman fyrir ykkur líka að heyra minningar hennar um Torfastaði, en þær eru margar og skemmtilegar.

Fyrir nokkrum árum vorum við boðin í réttir til Vatnsleysu.   Bóndinn þar mundi vel eftir séra Eiríki og hafði margt skemmtilegt að segja um samskipti við hann.  Þó var fólk á þessum tveimur bæjum víst ekki alltaf sammála, þar sem allt logaði í pólitík í sveitinni á þessum árum.   Stundum rifist um það en góður vinskapur samt.

Hvað sem því líður, þá datt mér bara í hug að senda þér smá-áramótakveðju.  Enda alltaf óvenju "sentimental" á þessum árstíma...

Óska þér og þínum gleðilegs árs.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 3.1.2009 kl. 08:46

2 Smámynd: Drífa Kristjánsdóttir

Gleðilegt ár Hildur Helga, og hjartans þakkir fyrir notalega kveðju.  Voðalega er gaman að fá óvæntar kveðjur í skammdeginu.  

Það væri mér mikil gleði að fá þig og móður þína í heimsókn hingað á Torfastaði, njóta sagna hennar og minninga.  Við njótum þess að búa hér á Torfastöðum enda höfum við verið hér undanfarin 25 ár.  Óska þér, móður þinni og fjölskyldu alls hins besta og hlakka til að fá ykkur í heimsókn. 

Drífa Kristjánsdóttir, 3.1.2009 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband